149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ræddi Tyrkland og mannréttindamál þegar mælt var fyrir þessu fríverslunarmáli í þingsal og ætla að nota tækifærið til að ræða aftur mannréttindi í Tyrklandi og lýðræðið þar sem er á fallanda fæti. Mig grunar að mörgu leyti að ástandið sé alvarlegra en við heyrum gjarnan um. Ég vísa til þess að fram fara miklar fangelsanir þeirra sem gagnrýna stjórnvöld. Það er vegið að frelsi fjölmiðla. Það eru hreinsanir í stjórnkerfinu, dómskerfinu, menntakerfinu og víðtækar aðgerðir líka gegn stjórnarandstöðunni. Allt þetta er merki um aðgerðir sem eru fullkomlega ólíðandi. Svo er alveg sérstaklega rétt að minna á aðförina gegn Kúrdum sem heitir einfaldlega á venjulegu máli mjög alvarleg kúgun. Sumir nota enn alvarlegri eða stærri orð um þetta en ég ætla ekki að gera það hér.

Það má líka nefna innrásina í Sýrland þar sem Tyrkland hefur beinlínis ráðist inn í nágrannaríki.

Okkur verður tíðrætt um gildi og gagnsemi fríverslunarsamninga og margt er sagt um hvaða áhrif þessir samningar kunni að hafa, annars vegar á valdhafana og hins vegar á almenning og þá jafnvel stjórnarandstöðu, hvernig okkur beri að umgangast það, hvort við tökum, eins og hér kom fram áðan, viðskiptahagsmunina fram yfir allt annað eða hvernig við vegum þetta allt saman. Það er vissulega vikið að nauðsyn mannréttinda í umræddum fríverslunarsamningi og þá vaknar spurningin um hver styrkur EFTA-landanna í gagnrýni á mannréttindamál í Tyrklandi er yfir höfuð. Nú má segja að í EFTA séu smáríki á alþjóðavísu og alveg spurning hversu alvarlega tyrknesk stjórnvöld taka gagnrýni ef hún kemur þaðan.

Þá kviknar önnur spurning. Mannréttindanefnd á að vera starfandi á vegum EFTA en eftir því sem við höfum heyrt er hún lítt eða ekki virk. Spurningin er hvort þá sé ekki kominn tími til að virkja hana.

Ég ætla ekki að fjölyrða um endurnýjun þessa fríverslunarsamnings eða um hvernig vega beri annars vegar fríverslunarsamning við eitthvert ríki og hins vegar ástandið innan lands. Þetta er vissulega erfitt en ég tek undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að við verðum að vanda okkur mjög við það, hvort sem það er innan utanríkismálanefndar þar sem ég sit eða við samráð milli utanríkisráðherra eða stjórnvalda og nefndar. Við eigum að vanda okkur mjög mikið til að þessi afstaða okkar sé rétt og skýr hverju sinni.

Ég vil nota tækifærið hér til að hvetja ríkisstjórnina, sérstaklega utanríkisráðherra, til að ræða nú hvort og með hvaða hætti Ísland geti komið skýrum skilaboðum um skort á mannréttindum til Tyrklands við þær aðstæður sem eru þar til orðnar. Ég vil líka nota tækifærið og hvetja okkar fulltrúa í þingmannanefnd EFTA og í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna til að gera sitt besta af þessu sama tilefni.

Ég hef samþykkt að vera með á þessu nefndaráliti með töluverðum efasemdum, með tunguna út í kinn eins og sagt er, en taldi samt rétt að vera þar með ásamt öllum öðrum. Ég vil þá líka nota tækifærið, eins og hér hefur verið gert, til að þakka formanni fyrir að hafa haldið styrkri hendi utan um þessa vinnu. Það eru fleiri slíkir samningar í farvatninu, t.d. varðandi Filippseyjar, og við eigum sjálfsagt eftir að endurtaka þessa umræðu oft og tíðum við önnur tækifæri.