149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Þrískipting ríkisvaldsins er einn mikilvægasti þáttur lýðræðisstjórnarfyrirkomulags þess er við höfum hér á landi. Hugmyndin var lögð fram þegar allt vald ríkis var í höndum konunga og keisara. Þessi þrískipting gengur út á að valdi ríkisins sé skipt í þrennt, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Tilgangur hugmyndarinnar var að koma í veg fyrir að einn aðili fengi of mikið vald yfir samfélaginu. Hugmyndin var að tryggja jafnræði í ríkisvaldi og koma í veg fyrir harðstjórn yfirvalda yfir íbúum landsins. Þetta er hugmyndin, þetta er stjórnarfyrirkomulagið sem við íslenska þjóðin höfum ákveðið að hafa hér á landi.

Framkvæmdarvaldið er ábyrgt gagnvart dóms- og löggjafarvaldi. Út frá hugmyndinni um stjórnarfyrirkomulagið, lýðræðið sjálft, á framkvæmdarvaldið ekki að sitja á þinginu en hér situr allt framkvæmdarvald á þingi, utan eins ráðherra. Hver og einn ráðherra situr í þingsal með tvo hatta, sem ráðherra annars vegar og þingmaður hins vegar. Þetta brýtur í bága við stjórnarskrána sem við, hver einn og einasti þingmaður og ráðherra, skrifuðum undir þegar við hófum störf hér inni. Við skrifuðum undir eið. Um er að ræða valdatöku kjörinna fulltrúa.

Úr því að talið berst að ríkisstjórninni og tillögum hennar í kjaraviðræðunum til verkalýðsfélaganna hef ég þetta að segja: Virkilega?