149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Þarna eru lagðir til þrír staðir til könnunar og þeir gætu eflaust verið fleiri. Ég vona að fleiri staðir komi til skoðunar þegar að því kemur. Ég tel að málið sé brýnt og að kanna eigi vel staðarval fyrir nýjan flugvöll. Það er rétt að Reykjanes við innanvert Ísafjarðardjúp er kannski á jaðri þess að ná markmiðum með nýjum flugvelli fyrir Vestfjarðafjórðung. Það er lögð dálítil áhersla á að ekki sé raunhæft að í framtíðinni verði nema einn góður flugvöllur á Vestfjörðum. Það er ekki óeðlilegt að við stefnum að því að það verði einn góður flugvöllur aðgengilegur á Vestfjörðum.

Þetta er erfiður fjórðungur. Hann er mjög erfiður samgöngulega séð og fyrir flug. Út frá náttúrufarslegum aðstæðum telja kunnáttumenn varðandi flug að Reykjanes sé langhagstæðasti flugvöllurinn, ef menn stefna að því að gera góðan stóran flugvöll sem svarar öllum kröfum um aðgengi, stöðugleika, lendingaraðstöðu og víðerni. Þess vegna er þetta sett inn og væri fróðlegt ef farið verður í mælingar að sjá hvað kemur út úr því í samanburði við aðra kosti.