149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni svarið. Ég vil fyrst fá að segja að ég held að nauðsynlegt sé að við horfum til þess að það verði tveir flugvellir sem geti þjónað Vestfjarðasvæðinu. Annars vegar völlur sem horfir til þess að þjóna Ísafjarðarsvæðinu með forsvaranlegum hætti og hins vegar held ég að við eigum að horfa til þess að styðja við völlinn á Bíldudal, sem er jafn ágætur og hann er þótt hann verði ekki lengdur mikið frá því sem nú er.

Ég verð að segja að ég er enn þá jafn hissa á vangaveltu hv. þingmanns um mögulegan flugvöll við Reykjanesið. Ef við horfum landfræðilega á það eru þær vegabætur sem eiga sér stað á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðanverðra með jarðgöngum og fleiri vegabótum á allt öðru svæði en um væri að ræða með alþjóðaflugvelli á Reykjanesinu.

Ég held að ef flugvallarstæði finnst á Ísafjarðarsvæðinu sem undirbyggir að geta verið alþjóðaflugvöllur sé sjálfsagt að skoða það en við verðum að hafa í huga að þarna verði tveir flugvellir, hið minnsta, sem þjóni svæðinu með forsvaranlegum hætti. Ég held að nýr flugvöllur við Reykjanes sé ekki svarið í þeim efnum þó að þar sé undirlendi sem er ekki víða að finna á hinum góðu Vestfjörðum.