149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu enda er ég einn af flutningsmönnum hennar. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, 1. flutningsmanni, fyrir framsöguna.

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung …“

Eins og segir í greinargerðinni er þessi tillaga lögð fram til að ýta undir að bæta flugsamgöngur á Vestfjörðum.

Áætlunarflug er til þriggja flugvalla á Vestfjörðum, þ.e. til Ísafjarðar í Skutulsfirði, til Bíldudals og Gjögurs. Þetta eru allt mikilvægar almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins, eins og ástandið er núna í samgöngum í fjórðungnum. Brýnt er að standa vörð um þá þjónustu og það öryggi sem flugsamgöngur veita íbúum á Vestfjörðum.

Tölum um Ísafjarðarflugvöll sem er staðsettur í Skutulsfirði og er einn af þeim 25 flugvöllum sem hafa verið til og nýttir á Vestfjörðum. Hann var valinn á sínum tíma eins og aðrir staðir með tilliti til þeirra samgangna sem voru við þá staði, eins og Skutulsfjörð, það var bara út fjörðinn og varla stundum fært til Bolungarvíkur, hvað þá yfir á aðra staði. Nú er öldin önnur og staðsetningin á þessum flugvelli er mjög erfið og hefur þó nokkrum sinnum komið fyrir að allt að helmingur flugferða yfir mánuðinn hefur verið felldur niður. Í febrúar á síðasta ári var t.d. sú staða uppi. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir. Hann er viðkvæmur fyrir sunnan-, austan- og suðaustanáttum þannig að það má varla blása mikið en hann er nokkuð góður í norðaustanáttum sem eru svo sem ríkjandi heima. Það er samt allt að breytast líka í þeim efnum og suðlægar áttir hafa verið ríkjandi, t.d. síðasta vetur og eins í vetur.

Staðsetning í þröngum firði skapar óhagstæð skilyrði og þá er ekki hægt að lenda. Þetta er náttúrlega eins og Vestfirðir eru, þeir eru mjög vogskornir og það er eins í flestum fjörðum. Ég held að það skipti máli að komast út úr fjörðunum eins og þeir sem hafa fagþekkingu benda á.

Vestfirðingar hafa bent á þetta og skorað á stjórnvöld að láta gera úttekt á nýjum flugvallarstæðum á Vestfjörðum sem gætu þjónað innanlandsflugi og mögulega millilandaflugi í framtíðinni. Nú er landslagið svolítið að breytast í samgöngum á Vestfjörðum með tilkomu Dýrafjarðarganga og nýs vegar um Dynjandisheiði. Það myndi stækka þjónustusvæði slíks flugvallar og nýr flugvöllur er mikilvæg forsenda í þeirri atvinnuuppbyggingu sem er fram undan í landshlutunum.

Það er alveg klárt, eins og með Bíldudalsflugvöll sem má nefna í því sambandi, að við erum ekki bara að tala um að almennt veðurfar á Vestfjörðum sé svo erfitt að ekki sé hægt að lenda þar, heldur er staðsetning flugvallanna þannig að veðurskilyrði innan fjalla gera aðflugið mjög erfitt og líka þegar verið er að taka á loft. Talað hefur verið um að Bíldudalsflugvöllur sé, miðað við notkun, opinn í 90% tilfella þegar á að fara að fljúga. Það eru ekki margir flugvellir sem geta staðist þá kröfu. Þetta er flugvöllur sem var gerður af heimamönnum en hann hefur sín takmörk. Bæði er hann of stuttur og ég held að ekki megi stærri vél en 18 sæta lenda þar. Stundum má samt ekki lenda nema níu manns séu í vélinni, það er takmarkað út af lengd brautarinnar. Ég vil bara undirstrika þetta með því að segja að það er möguleiki annars staðar á Vestfjörðum. Það eru ekki bara veðurfarslegar ástæður sem skerða möguleikana heldur líka landfræðilegar aðstæður.

Eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á er verið að benda á ákveðna staði eins og Reykjanes. Ég held að við séum ekkert að binda okkur við neitt, megum heldur ekki gera það heldur er bara nauðsynlegt að fara í nýja könnun á staðarvali fyrir flugvöll vegna nýrra samgangna. Sama hvaða þjónustusvæði verður fyrir valinu, hvort sem er Reykjanesið, í Dýrafirði, Bíldudal eða Arnarfirði, þurfa fagaðilar að koma þar inn og segja til um hvar sé best að koma. Margir flugmenn og fagaðilar í þessum efnum hafa skoðað málið og pælt í þessu og geta alveg sagt til um hvar sé best að byggja upp.

Þetta skiptir máli. Við erum að tala um að á Vestfjörðum er að byggjast upp atvinnuvegur sem þarf þjónustu. Við erum líka að tala um sjúkraflugið, í framlagðri heilbrigðisstefnu erum við að tala um að þjappa þjónustu jafnvel enn frekar saman. Við horfum á sjúkraflugið fyrir vestan sem nauðsynlegan þátt í því að geta sótt bráðaþjónustu hingað suður eða jafnvel til Akureyrar eða hvert sem því verður stýrt. Þó að það séu minni vélar sem þurfi styttri brautir og allt það hefur þetta verið erfitt. Ég held að þess vegna sé þetta mjög mikið öryggismál. Við þurfum líka að dreifa ferðamönnunum frekar um landið og nota þessa samgönguæð í það sérstaklega.

Ég hef ekki tölur um það en fjölgun hefur verið í sjúkraflugi á síðustu misserum vegna þess að dregið hefur verið úr viðbúnaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ef við tölum samhliða um fæðingar hefur skilgreindum áhættufæðingum fjölgað auk þess sem aukinn ferðamannastraumur á vestfirskum vegum hefur líka kallað á aukið sjúkraflug.

Ég ætlaði bara að koma hingað til að taka undir tillöguna. Ég vonast til að hún fái góða og skjóta meðhöndlun inn í samgönguáætlun, það verði horft til framkvæmda því að nú erum við bara að tala um að það verði farið í veðurfarsathugun og ráðist í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll, það sé þá tilbúið og í framhaldinu er hægt að fara fram með stærri framkvæmdir.