149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna. Ég er ekki allt of bjartsýn og verð að segja að ég held að við sjáum ekki nýjan flugvöll á Vestfjörðum innan skamms. Ég er kannski of jarðbundin og ekki eins hátt í skýjum og félagar mínir sem hafa rætt þessi mál. Ég leggst að sjálfsögðu ekki gegn því að fram fari staðarvalsskoðun á hugmyndum um nýtt flugstæði fyrir flugvöll á Vestfjörðum, hvort sem verið er að tala um norðanverða eða sunnanverða Vestfirði. Mér finnst ástæða til að horfa til þess hvernig hlutirnir eru í dag. Eitthvað sem gæti hugsanlega orðið að 20 árum liðnum eða eftir enn lengri tíma finnst mér að megi ekki verða til þess að menn dragi lappirnar við að byggja upp það sem við höfum þó í dag. Við höfum fjóra flugvelli á Vestfjörðum, á Gjögri, Ísafirði, Þingeyri og Bíldudal. Því miður hefur viðhald þeirra ekki verið gott. Til dæmis er planið við flugstöðina á Ísafirði, sem er auðvitað stærsti flugvöllurinn, yfirleitt eitt drullusvað, ekki malbikað. Það eru orðin 60 ár síðan aðstaðan þarna var byggð upp. (Gripið fram í: Bílaplanið.) Bílaplanið. Á 60 árum, sem eru minn aldur, hefur öllum þeim stjórnvöldum sem hafa verið þennan tíma ekki enn tekist að aura saman fyrir malbiki á þetta blessaða plan. Það er til skammar.

Maður getur kannski ekki sagt að eitt eyðileggi fyrir öðru en einhver staðarvalsskoðun gæti kostað 20–30 milljónir. Mér fyndist þeim peningum vel varið í að malbika þetta plan. Auðvitað þurfa menn samt að hafa framtíðarsýn og skoða alla möguleika með það í huga að hafa möguleika á flugvelli þar sem hægt er að vera með blindflug og millilandaflug og styðja við atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu og allt það sem við viljum sjá til framtíðar gerast á Vestfjörðum sem og í öðrum landshlutum.

Ég lagði fram fyrirspurn fyrir þremur árum um Þingeyrarflugvöll sem varaflugvöll fyrir Ísafjörð af því að mér fannst enginn áhugi á því að viðhalda þeim flugvelli sem varaflugvelli. Búið er að leggja mikla fjármuni í að byggja hann upp og það hefur verið hægt að fljúga á þann völl í þeim áttum þegar ekki er flugfært á Ísafjörð. Á sínum tíma urðu skemmdir í flugvellinum, frostlyftingar urðu á flugbrautinni árið 2013 sem ollu því að hún var ekki nothæf með góðu móti og hefði þurft að leggja fjármuni í að laga hana. Það var hins vegar aldrei gert af neinu viti og þess vegna gátu vélar ekki lent þar nema þær væru mjög léttar svo að nýting á þeim flugvelli hefur verið sáralítil og verið að dragast saman alveg frá þeim árum. Ég veit ekki hvort hann var nokkuð notaður á síðasta ári, ég hef ekki nýjustu upplýsingar um það.

Mér finnst mjög slæmt með innviðauppbyggingu eins og hefur verið gerð á Vestfjörðum að fjárfestingarnar séu ekki nýttar. Mér finnst að við sem tölum fyrir bættum samgöngum og öflugum samgöngum í lofti, á landi og á sjó verðum frekar að láta laga það sem þarf ekki eins mikla fjármuni í að gera, fremur en að einblína á það að í komandi framtíð gæti hugsanlega verið byggður nýr flugvöllur á Vestfjörðum sem gæti þjónað millilandaflugi, blindflugi og öllu því sem kröfur eru gerðar til varðandi flug stærri véla, flug allt árið og kannski við fleiri veðurskilyrði en hægt er í dag.

Þetta er góð framtíðarsýn en með þessari ræðu, sem þykir kannski frekar íhaldssöm og neikvæð, minni ég á veruleikann sem Vestfirðingar búa við í dag. Þó að við þingmenn fljúgum oft skýjum ofar, höfum bjartsýnina að leiðarljósi og horfum til þess að allt sé hægt að gera ef fjármunir eru til staðar verðum við líka að horfa á veruleikann eins og hann er og taka höndum saman um að reyna að afla fjármuna til að bæta úr innviðum þeim sem eru til staðar á Vestfjörðum í dag, hvort sem hann heitir Ísafjarðarflugvöllur, Þingeyrarflugvöllur, Bíldudalsflugvöllur eða Gjögurflugvöllur.

Margt gott er samt að gerast heilt yfir varðandi flugið, eins og kom fram hjá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni. Ég bind vonir við að skoska leiðin verði að veruleika og að litið verði á flugið sem almenningssamgöngur. Ég bind jafnframt vonir við uppstokkunina á rekstri Isavia þar sem losnar vonandi um fjármuni til að byggja upp minni flugvelli vítt og breitt um landið, sérfélag um stóru flugvellina sem eru til staðar í dag og að millilandaflug við þá verði treyst. Það gæti þýtt að settir yrðu auknir fjármunir í minni flugvellina vítt og breitt um landið. Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir landsbyggðina alla að hægt sé að bjóða upp á öflugar flugsamgöngur, ekki bara fyrir ferðamenn heldur líka fyrir íbúa viðkomandi svæða.

Sú keðja má ekki rofna og við eigum að standa vörð um það. Það sem ríkisstjórnin og þingmenn eru að vinna að í þeim málum tel ég vera á réttri leið og til fyrirmyndar. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggjast gegn þessari þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum vegna þess að ég veit að þeir þingmenn sem flytja tillöguna gera það af góðum hug einum og vilja skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Við verðum að vera með opin augun fyrir þeim möguleikum sem við höfum í þeim efnum en gleyma ekki ástandinu í dag í þessum málum, ekki gleyma hvað við getum gert betur.