149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Hún var tilfinningarík, upplýsandi og ákaflega innihaldsrík. Ég þakka jafnframt hv. þingmanni fyrir góð orð í minn garð. Ég vil segja að það var ekki ætlun mín að kannski stuða, ef svo má að orði komast, konur með því að tengja málið tölfræðilegum upplýsingum um fóstureyðingar. Þetta var fyrst og fremst til að vekja athygli á þessum staðreyndum. Eins og staðan er í dag er, eins og ég segi, að jafnaði einungis eitt íslenskt barn á ári ættleitt hér á landi. Ég á ekki von á því að þær hlutfallstölur sem ég setti fram fyrst og fremst til upplýsingar breytist mikið með þessu frumvarpi.

Ég vonast til þess að frumvarpið og sú umræða sem hér hefur farið fram, sem hefur verið ágæt, opni umræðuna um ættleiðingar íslenskra barna og verði opnari og jákvæðari en hún hefur verið. Hv. þingmaður nefndi réttilega það gríðarlega álag sem konur þurfa að ganga í gegnum þegar kemur að fóstureyðingum eða því sem tengist fæðingum, andvana fæðingum o.s.frv. (Forseti hringir.) Það álag er líka til staðar hjá þeim konum sem vilja láta ættleiða sitt barn en geta það ekki af einhverjum ástæðum.