149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Málið snýst auðvitað til lengdar um þetta: Frjálst flæði fjármagns er okkur gríðarlega mikilvægt, bæði til frjálsra fjárfestinga fyrir okkur, lífeyrissjóðakerfið okkar og ekki síður fyrir frjálst flæði fjárfestinga inn í landið sem skiptir oft gríðarlega miklu máli. Það er mjög mikilvægt að við höfum sem ríki trúverðugleika um að hér gildi einfaldlega eðlilegar reglur og lagavernd fjármagns og eignarréttar líkt og alls staðar annars staðar. Það eru auðvitað þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist í alþjóðlegu samhengi. Við nýttum okkur auðvitað með árangursríkum hætti ákveðinn neyðarrétt út af þeirri fordæmalausu stöðu sem við vorum í og ég skil hv. þingmann mætavel að vera stoltan af því hvernig til tókst í þeirri áætlun. En það var auðvitað svo að þeir sem völdu að sitja eftir máttu hafa réttmætar væntingar um að það kæmi einhvern tímann að þeim tímapunkti, hann væri óskilgreindur, að þjóðhagslegar aðstæður leyfðu frekari losun þessara hafta. Þeir tækju þá sína áhættu varðandi ávöxtun þess fjármagns meðan það væri bundið hér og hvert gengi krónunnar yrði þegar þeim yrði að endingu hleypt út. Það er áhætta. Það er engin vissa í því. Gengið hefði allt eins getað verið umtalsvert veikara ef því væri að skipta. Sú er ekki raunin.

Það getur ekki verið trúverðugt af okkar hálfu að boða það að hér eigi að halda fjármagni bundnu inni með einhverjum hætti og það eigi ekki að hleypa því út öðruvísi en að taka á því einhvers konar snúning. Aðgerðin snerist ekki um að taka snúning á kröfuhöfunum. Aðgerðin snerist um að losa út fjármagn sem nauðsynlegt var fyrir trúverðugt afnám gjaldeyrishafta til lengri tíma litið með þeim hætti að þjóðhagslegum stöðugleika yrði ekki raskað. Það tókst.

Það er ekkert sem komið hefur fram í máli hv. þingmanns og annarra sem hafa rætt þetta mál að undanförnu sem bendir til þess (Forseti hringir.) að okkur stafi einhver þjóðhagsleg ógn af því nú að stíga næstu skref við (Forseti hringir.) afnám. Þess vegna skil ég ekki málflutning hv. þingmanns.