149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:58]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir góða ræðu. Hann var að mörgu leyti á svipuðum slóðum og ræðumenn hér á undan. Ég ætlaði að spyrja hann svipaðrar spurningar og ég spurði hv. þm. Birgi Þórarinsson að áðan, um þessa dagsetningu, en því var stolið af mér. Allt í góðu með það, þetta eru svona vangaveltur. (BergÓ: Spurðu bara aftur, það eru nefnilega nýjar upplýsingar.)

Ég spurði hv. þm. Birgi Þórarinsson hvert hann teldi geta verið svarið við því af hverju 26. febrúar væri dagsetningin og af hverju þessi rosalegi hraði væri á málinu. Hann svaraði því ágætlega og sagði: Það er erfitt fyrir mig að svara því en það væri kannski hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem gæti svarað því. Hann hefur hins vegar ekki sést hér á svæðinu.

Ég ætla samt sem áður að leyfa mér, af því að ég sé að það stirnir á augun í hv. þingmanni, að spyrja hann sömu spurningar um þetta: Á hann þetta svar til handa mér eða getur hann getið sér til um það?

Ég ætla síðan að koma að vaxtamálum í seinna andsvarinu. Við erum alltaf að glíma við háa vexti og ég ætla að koma aðeins að vaxtamálum og eins því að þjóðin treysti fulltrúum þingsins til að starfa fyrir sig.