149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Já, hættan er vitanlega sú vegna þess að þegar bankahrunið varð, þegar efnahagshrunið varð á Íslandi varð að sjálfsögðu ákveðið orðstírsáfall, ég orða það þannig. Vitanlega vegna þess að menn drógu upp ákveðna mynd af Íslandi og því sem við gerðum hér, ekki síst Bretar, með því að setja hryðjuverkalög á okkur o.s.frv.

Svo reyndist nú, eins og margoft hefur verið bent á, réttilega, kannski ekki mikið skjól í svonefndum vinaþjóðum okkar þegar á reyndi, heldur þurftum við að beita fyrir okkur lögum, landslögum og alþjóðlegum, og í rauninni því sem við töldum rétt. Einhvern tímann var flokkur sem var með slagorðið: „Gjör rétt, þol ei órétt.“ Sá flokkur mætti gjarnan hafa það í huga áfram. Okkar afstaða, að standa í lappirnar, jók traust og trúverðugleika á Íslandi og gerði það að verkum að við vorum aftur komin á stall meðal þjóðanna.