149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og andsvarið. Ef 84 milljarðar fara út þá finna menn auðvitað fyrir slíku. Það er nú eitt af því sem má gagnrýna mjög í þeim plöggum sem fyrir okkur liggja hér í dag að það virðist engin greining hafa farið fram á því, alla vega ekki sem skilar sér til okkar þingmanna í gögnum málsins.

84 milljarðar í útflæði. Ef við gefum okkur bara þá kenningu að það fari bara innan dagsins þegar það losnar þá getur það ekki haft neitt annað en veikingaráhrif, hvort sem þau eru tímabundin eða til langframa. Veiking krónunnar vegna þess hefur auðvitað áhrif inn í verðlag og annað slíkt þannig að það skilar sér inn í verðbólguna ef það á sér stað, og tímarnir eru mjög snúnir akkúrat núna. Burt séð frá þessu þá held ég að við hljótum að horfa fram á það, af því að spurt var um vextina, að vextir, stýrivextir fari lækkandi. Þeir eru svo háir. Raunvaxtastigið er svo hátt að ég held að við hljótum að vera að sigla inn í tímabil lægri raunvaxta. Það er ákveðin hætta á því að gengiseftirgjöf sem þessi setji verðbólguna af stað og að Seðlabankinn muni grípa til einhverra aðgerða í tengslum við slíka uppákomu.

Greiningarleysið í gögnunum hvað þessi atriði varðar lít ég mjög alvarlegum augum, en það er alveg klárt að 84 milljarðar hafa áhrif. Það er erfitt að svara því héðan úr pontu óundirbúið en ég held að það kæmi strax fram í gengi og alveg örugglega skömmu síðar á vaxtaákvarðanir.