149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af því að frumvarpið muni hafa neikvæð áhrif á gengið sem mun þá gera það að verkum að öll aðföng verða dýrari í innkaupum og lán landsmanna hækka. Það hefur áhrif á vísitöluna og verðbólgan fer af stað, vegna þess að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða. Við erum að tala um 84 milljarða sem eiga að fara út úr landinu í formi gjaldeyris, erlends gjaldeyris.

Ég hef heldur ekki fengið nein haldbær rök fyrir því hvers vegna Seðlabankinn skýrir ekki í umsögn sinni í nefndarálitinu hvaða áhrif frumvarpið geti haft (Forseti hringir.) heldur segir einfaldlega að það komi ekki til með að hafa áhrif. Það er ekkert rökstutt. Það verða að vera einhverjar sviðsmyndir í þeim efnum eigi það að vera marktækt.