149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og upprifjunina á þessari fjárfestingarleið. Mig langar að biðja þingmanninn að fara aðeins nánar ofan í þessa leið og, ef hann man, upplýsa okkur um hversu miklir fjármunir fóru í gegn eftir þessari aðferð. Ég hef fullan skilning á því ef hann hefur það ekki alveg á takteinunum, en það er hins vegar forvitnilegt og áhugavert að setja það í stóra samhengið.

Þessi leið hefur vitanlega verið gagnrýnd af mörgum, ekki síst þeim sem voru einmitt í samkeppnisrekstri við þá aðila sem gátu nýtt sér þessa leið og þar af leiðandi varð ákveðið misvægi á markaði, ef má orða það þannig. En mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir þessa fjárfestingarleið.

Síðan er það náttúrlega hitt málið. Þegar við setjum hlutina í samhengi og veltum fyrir okkur þeirri eftirgjöf sem nú á sér stað þá má spyrja hvort við séum í sumum tilfellum að endurtaka leikinn, þ.e. við erum að skipta við sömu aðilana að einhverju leyti, að það séu aðilar sem hafa átt kannski dreifðar eignir og séu búnir að nýta sér allar leiðir en taka alltaf það besta mögulega og séu enn að núna. Þetta eru vangaveltur. Svörin við þessu liggja kannski ekki uppi á borðinu frekar en við öðru sem hér hefur verið óskað svara við. En hins vegar er áhugavert að fá áframhaldandi umræðu um þá mismunun sem átti sér stað með fjárfestingarleiðinni.