149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Ég hef eiginlega allan minn tíma á þingi, sem er nú ekki mjög langur, haft nokkrar áhyggjur af því hvernig álögð gjöld innheimtast. Þess vegna var það náttúrlega með mjög glöðum huga sem ég t.d. tók þátt í því með félögum mínum í Miðflokknum við 2. umr. fjárlaga í haust að leggja til að embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra fengi liðsauka til að innheimta þegar álögð gjöld. Miðflokkurinn lagði til útgjaldaaukningu á fjárlögum upp á 6,5 milljarða kr. sem fjármagnaðist að öllu leyti af bættri innheimtu á ríkissjóðsgjöldum, þ.e. á gjöldum sem þegar höfðu verið álögð. Við vorum ekki að tala um nýja skattheimtu heldur einvörðungu bætta innheimtu.

Þær hugmyndir sem við höfum haft í Miðflokknum um bætta innheimtu hjá ríkissjóði fékk ég staðfestar nú í kjördæmavikunni þar sem við heimsóttum bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Þá komst ég að því hjá báðum embættum að tillögur okkar Miðflokksmanna við 2. umr. fjárlaga, sem voru felldar af öllu stjórnarliðinu og fleirum til, voru hárréttar, þær voru tímabærar og þær voru fullkomlega raunhæfar.

Ég hef áhyggjur af því sem fyrrum innheimtumaður ríkissjóðs og fjárgæslumaður til margra ára þegar ríkissjóður lekur. Það er eitthvað sem segir mér við afgreiðslu þessa máls núna að í því felist allnokkur leki út úr ríkissjóði. Það truflar mig mjög og það fer bara gegn sannfæringu minni um það sem ég hef undirgengist að gera hér inni, að ég sé að gera rétt með því að láta það yfir mig ganga og okkur öll hér að þetta mál sé afgreitt á þrem tímum og korteri í gegnum Alþingi.