149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hans prýðisgóðu ræðu, og þær hafa verið margar góðar af hans hálfu.

Við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu af hverju ákveðið sé af hálfu ríkisstjórnarinnar að víkja frá markaðri stefnu varðandi aðferð við að ljúka uppgjöri vegna þessara aflandskróna.

Það sem stendur upp úr í því efni er að með því er horfið frá þeirri stefnu að í gegnum aðferðina, uppboðsleiðina, sem mörkuð var svo skýrt og vandlega árið 2015 sýnist sem ríkissjóður geti orðið af mjög umtalsverðum fjármunum. Þessir hagsmunir ekki síst, sem við í þingflokki Miðflokksins höfum kosið að standa vörð um — það hefur vakið athygli ýmissa, þar á meðal mín, að engin grein er gerð fyrir því í greinargerð með frumvarpinu hvaða fjárhæðir gæti verið um að tefla.

Hins vegar er yfirlýsing sem er allsérkennileg og hefur verið vakin athygli á hér áður, að þetta snerti ekki ríkissjóð. En það snertir auðvitað ríkissjóð í þeim skilningi að hann verður af, eða sýnist geta orðið af, umtalsverðum fjármunum. Hefur þingmaðurinn lagst yfir þetta og mótað sér fastákveðna skoðun á því á hvaða bili þær fjárhæðir gætu legið miðað við (Forseti hringir.) reynsluna af þeim uppboðum sem fram hafa farið?