149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargott svar. Ég hjó sérstaklega eftir lokaorðum hans um að réttarfarsleg staða okkar væri býsna góð. Það er nefnilega kjarni málsins og hefði því miður þurft að brýna hann fyrir stjórnvöldum þegar þau létu undan vogunarsjóðunum með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að og er hér í þessu frumvarpi. Þau gefa eftir þrátt fyrir að staðan réttarfarslega sé mjög góð, þau séu í fullum rétti að halda því til streitu að eitt verði látið ganga yfir alla. Engu að síður gefa þau eftir og er það að sjálfsögðu mjög dapurlegt og vekur auk þess upp spurninguna: Hvers vegna var sú leið farin?

Við höfum ekki fengið neitt svar við þeirri spurningu hér og það er það sem við höfum margsinnis bent á að er nauðsynlegt að fá svar við.