149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir það með þingmanninum að þetta frumvarp hefur fengið allt of litla umfjöllun. Það er mjög umhugsunarvert hvers vegna því var laumað hér inn. Við þekkjum þá sögu og ég minni á það að þegar þessi vel heppnaða leið haftalosunar var kynnt á sínum tíma af fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, var það gert með þeim hætti að þjóðin vissi hvaða vegferð við vorum að fara í. Sú kynning var mjög vel heppnuð og að sjálfsögðu voru stjórnvöld á þeim tíma og fyrrverandi forsætisráðherra stolt af þeirri vinnu vegna þess að hún var gríðarlega mikil og eðlilegt að framkvæmdin yrði vel kynnt svo að almenningur vissi hvernig hún yrði og hverju hún myndi skila fyrir almenning. (Forseti hringir.)

Því er ekki fyrir að fara hvað þetta frumvarp varðar. Því er laumað hér inn og það er eiginlega eins og ríkisstjórnin skammist sín fyrir þetta mál.