149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa í gáleysi talað um alvarlegan sjúkdóm í hálfkæringi, það er ekki það sem ég átti við og ætlaði ekki að gera. Ég biðst afsökunar á því.

Hins vegar held ég að það sé frekar, sem betur fer, hv. þingmaður sem er að færast nær og átta sig á því að það getur verið að til sé betri kostur, a.m.k. jafn góður kostur en það sem er núna. En hann var ekki á þeirri skoðun fyrir nokkrum árum, (Gripið fram í.) alls ekki.

Þegar við tölum um að verja flugvöllinn á meðan annar jafn góður eða betri kostur er til held ég einfaldlega að það sé betra að gera það með samræðum, með samningum, með því að drífa í gang einhverja frekari vinnu á staðargreiningu, en að gera það með þingsályktunartillögu sem felur í sér pólitískan ómöguleika, eins og formaður hv. þingmanns kallaði það á sínum tíma, þ.e. að lofa fólki einhverju en þurfa svo, ef maður ætlar að efna það, að breyta lögum sem eru miklu dramatískari og erfiðari í umgengni. Hann hefði fyrst átt að leggja fram frumvarp um að taka skipulagsréttinn af sveitarfélögum. (Forseti hringir.) Síðan hefði hann átt að koma með þetta.