149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

rafræn skjalavarsla héraðsskjalasafna.

511. mál
[15:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, þetta hefur reynst héraðsskjalasöfnunum stórt og viðamikið verkefni. Kvartað hefur verið undan því að fjármuni skorti. Það er alveg ljóst að þó að allar sveitarstjórnarskrifstofurnar noti rafræn gagnakerfi hefur aðeins Borgarskjalasafn Reykjavíkur tilkynnt um og fengið heimild fyrir rafrænni skjalavörslu. Þarna er því aðstöðumunur.

Ég er sammála þeim þingmönnum sem nefna að héraðsskjalasöfnin gegni mjög mikilvægu hlutverki. Það er svo hlutverk okkar að halda utan um þessi skjöl til að þessar heimildir varðveitist. Við gerum það á skipulegan og uppbyggilegan hátt. En það er ljóst að við þurfum að vinna mjög vel að þessari reglugerð og huga að því að þetta sé allt gert í góðri samvinnu og sátt á milli Þjóðskjalasafnsins og héraðsskjalasafnanna.

Einar okkar merkustu heimildir eru bókmenntaarfurinn sem við höfum náð að varðveita. Ég er með þá kenningu að það skili sér hreinlega í auknum lífsgæðum, að þeim þjóðum hreinlega vegni betur sem halda svona vel utan um menninguna, söguna og annað slíkt og bera gæfu til þess.

Ég held að við séum dæmi um slíka þjóð.

Ég tek þannig heils hugar undir þær áhyggjur og athugasemdir sem koma hér fram og mun nota þær í vinnunni fram undan við gerð þessarar reglugerðar.