149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í umræðu um innflutning á fersku kjöti. Við Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir erum reyndar skemmtilega samtaka því að við mælum líka bæði fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um stimpilgjald síðar í dag. Við erum greinilega ansi samstiga á þessum ágæta degi.

Sú umræða sem á sér stað um innflutning á fersku kjöti ber með sér mikið lýðskrum. Hér er verið að hræða fólk algerlega að óþörfu um þá miklu sýkingarhættu sem sögð er fylgja slíkum innflutningi, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á að helsta ástæða fjölónæmra baktería sé einmitt mikil sýklalyfjanotkun í mönnum. Þar berum við höfuð og herðar yfir aðrar Norðurlandaþjóðir og raunar fjölmargar aðrar Evrópuþjóðir ef út í það er farið. Við ættum kannski að einbeita okkur að því að draga úr þeirri miklu sýklalyfjanotkun hjá okkur sjálfum.

Jafnframt hefur verið bent ítrekað á að frysting á kjöti hefur engin áhrif á fjölónæmar bakteríur. Samt er þessari hræðslu haldið á lofti og hefur frystiskylda verið í gildi gegn betri vitund íslenskra stjórnvalda sem frá upphafi vissu og voru ítrekað vöruð við að stæðist ekki þær skuldbindingar sem stjórnvöld höfðu þá nýverið undirgengist, hún stæðist ekki lög og hefði í ofanálag engin áhrif.

Önnur meginhættan hjá okkur er auðvitað hinn mikli ferðamannastraumur og smit vegna komu ferðamanna. Ég geri ráð fyrir því að stjórnvöld hyggist ekki taka upp 30 daga frystingarskyldu á ferðamönnum. Það myndi alla vega hafa nokkuð neikvæð áhrif á streymi þeirra hingað til lands.

Það er kominn tími til að láta af lýðskrumi í kringum þessa umræðu og það er kominn tími til að virða þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist í alþjóðaviðskiptum og vísvitandi þverbrotið undangengin 12 ár. Ég vona að Alþingi sameinist um að hleypa frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í gegn þegar það kemur fyrir þingið.