149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[10:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og er sammála því sem hann fór yfir varðandi mikilvægi þess að við stöndum vörð um landbúnaðarvörur okkar. Það er rétt hjá ráðherra að þannig er í málinu að lagatæknileg atriði eru fullreynd en ég er þeirrar skoðunar að pólitískt séð höfum við ekki fullreynt það hvort við náum einhverri niðurstöðu. Mér er kunnugt um að þetta mál sem slíkt hafi ekki farið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að fyrir liggur dómur sem er byggður á lagalegum grundvelli en það er líka mikilvægt að menn reyni allan pólitískan þrýsting. Við höfum í gegnum söguna náð góðum árangri. Við náðum góðum árangri í landhelgisdeilunni við Breta með pólitískum þungavigtarmönnum meðal stjórnmálamanna. Ég tel því mikilvægt að við reynum þetta og förum með málið fyrir sameiginlegu nefndina (Forseti hringir.) til að sjá hvort ekki sé hægt að ná pólitískri lendingu. Við höfum geysilega sérstöðu sem er mjög mikilvægt að halda á lofti.