149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[10:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni þegar hann talar um mikilvægi þess að halda í það sem gott er á Íslandi. Hins vegar er fallinn dómur. Menn segja kannski: Það er bara vont fyrir okkur að dómur falli í málum eins og þessum. En vanalega er það gott fyrir okkur þegar litla Ísland sækir á vegna okkar hagsmuna, þá er það algerlega okkar hagur að alþjóðalög gildi.

Þó svo að við getum farið í gegnum þorskastríðin og hvernig við beittum okkur þar erum sannarlega að beita okkur í þessum málum og ýmsum öðrum og á endanum er það fyrir 350.000 manna þjóð algjörlega hennar hagur að það séu til einhverjar leikreglur sem þeir aðilar sem spila eftir því geta sótt í og fengið niðurstöðu.

Staðan í þessu máli er einfaldlega sú að ég held að það sé rétt á þessum málum haldið af hálfu ríkisstjórnar og að við leggjum áherslu á að við förum í sókn, sitjum ekki bara og verjumst. Ég held að sóknin felist að stórum og kannski stærstum hluta í því að íslenskur almenningur og þeir ferðamenn sem hingað koma séu meðvitaðir um það hvaða vöru við höfum upp á að bjóða. (Forseti hringir.) Mín reynslu er sú að þegar fólk þekkir þau mál velur það íslenskt.