149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

eftiráleiðréttingar launa.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður ekki sagt annað um þingmenn Pírata en að þeir færi umræðuna á þingi á hærra og hærra plan. Þegar menn eru ekki bornir þeim sökum að hafa beinlínis stolið af almannafé eru þeir kallaðir hræsnarar. Hv. þingmaður var auðvitað ekki að gera neitt annað en að segja að fjármálaráðherrann væri hræsnari eftir að hafa kokkað upp þau ósannindi að ráðherrann hefði lagt eitthvað til varðandi eigin laun. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þingið hefur ekki fjallað um laun þingmanna eða ráðherra. Um það gilda lög. Kjararáð starfaði samkvæmt lögum þar til það var lagt niður. Tillagan sem nú liggur fyrir þinginu er um að byggja á niðurstöðu kjararáðs frá árinu 2016 og í krónutölu gildir enn þá úrskurður kjararáðs frá 2016. Hann hefur ekki breyst um eina krónu frá þeim tíma.

Í frumvarpinu sem nú er í þinginu er lagt til að sú krónutala haldi sér fram á mitt þetta ár. Við höfum fengið umsagnir um að við ættum að lengja það tímabil. Ég tel það vel koma til greina.

Það er hins vegar rangt þegar hv. þingmaður segir að þingmenn hafi notið hækkana á launum sínum umfram aðra hópa, jafnvel þótt einungis sé horft aftur til ársins 2013, eins og lesa má um í skýrslu sem gefin var út eftir samstarf stjórnvalda við alla aðila vinnumarkaðarins snemma á síðasta ári. Þar kom fram að með því að láta launin haldast óbreytt út árið 2018 væru þingmenn almennt — og þeir hópar sem heyra undir kjararáð — komnir á sömu launaþróunarlínu og aðrir hópar með 2013 sem viðmiðunartímabil.

Það er beinlínis rangt að kjör þingmanna og ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð hafi að meðaltali verið með (Forseti hringir.) allt öðrum hætti frá þeim tíma. Það er allt í lagi að horft sé lengra aftur í tímann, eins og til ársins 2006, sem ég hef bent á, og man ekki betur en að gert sé í þessari skýrslu, eða a.m.k. í þessari umræðu, og skoða hvernig þessir hópar hafa þróast yfir lengri tíma litið.