149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[11:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Um málið er algjör samstaða í ríkisstjórninni. Í þeim málum eins og öðrum erum við fyrst og fremst og eingöngu að hugsa um hagsmuni Íslands. Við förum þess vegna yfir málið, eins og ég nefndi áðan, með það í huga. En við þekkjum alveg umræðuna í landinu, við vitum alveg hvernig hún er, og við verðum að taka þetta á breiðari grunni. Við verðum að ræða EES-samninginn, og hinar endalausu rangfærslur sem hafa verið í gangi um EES-samninginn mjög lengi eru algjörlega óþolandi. Það eru tveir aðilar sem sameinast í að koma þeim rangfærslum áleiðis, annars vegar þeir sem vilja ganga í ESB og hins vegar nýi hópurinn núna, dótturfélag norska Miðflokksins sem vill ganga út úr EES-samningnum. (ÞorstV: … ekki að kenna …)

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður verður bara að gangast við því að ESB-sinnar hafa hvað eftir annað haldið því fram að við séum að taka 90% af gerðum Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Hver er staðreyndin samkvæmt tölum, ekki frá okkur heldur frá evrópskum stofnunum? 13,4. (Gripið fram í.) Á því er stór munur. Enn og aftur vil ég nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja mig spurninga um utanríkismál.