149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[15:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil taka það fram að ég efast alls ekki um hæfni þeirra á Hafró til að skoða þessi mál og tjá sig um þau. Ég kem þá aftur að því sem ég kom inn á áðan, að það væri kannski bragur á því, ef það er einhver meiningarmunur varðandi það hvort selastofninn eigi að teljast sem nytjastofn og eigi þess vegna frekar heima undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eða villt spendýr og eigi þess vegna að vera í umhverfisráðuneytinu, og það væri alla vega gagn að því ef ráðuneytin kæmu sér saman um að semja í sameiningu einhvers konar löggjöf eða skipa vinnuhóp um þennan stofn sérstaklega ef menn vilja það.

En ég ítreka að ég skil í rauninni einfaldleikann í að gera þetta svona vegna þess að þá er forræðið á hendi eins ráðuneytis og eins ráðherra til að klára málið og koma alla vega þessum stofnum í var á meðan menn hugsa sinn gang og velta fyrir sér næstu skrefum.