149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér, eins og fram hefur komið, mikilvægt málefni sem varðar mikla hagsmuni byggðarlaga, rekstraraðila og síðast en ekki síst umhverfisins. Fiskeldi, laxeldi, eldi á bleikju, regnbogasilungi og fleiri tegundum, er ekki atvinnugrein sem einhverjir eru að huga að og undirbúa. Þessar greinar eru á fleygiferð og athafnamenn fara mikinn. Þetta er að gerast þrátt fyrir að löggjöf sé algjörlega ófullnægjandi og umgjörðin öll í skötulíki, bæði varðandi leyfisveitingar og gjaldtöku fyrir afnot af eldissvæðum í hafi. Á þessu ári er t.d. áætlað að laxeldisframleiðslan ein og sér hér á landi geti numið um 12–15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum. Þetta skiptir máli í þjóðarbúskapnum.

Úthlutað hefur verið leyfum til starfsemi á þeim takmörkuðu svæðum þar sem sátt er um að fiskeldi fari fram og er talsverður handagangur í öskjunni. Þetta er kjörstaða gullgrafaranna sem olnboga sig einbeittir áfram.

Því miður er losaraleg lagaumgjörð enn sláandi og vonandi verður gerð bragarbót á því. Þessi starfsemi kallast á við mikilvæga umhverfisþætti, eins og áður hefur verið drepið á, og að við gætum þess að inngrip okkar hafi ekki varanlegar og óafturkræfar afleiðingar. Við þekkjum því miður dæmi um það allt í kringum okkar þegar atvinnustarfsemi er annars vegar. Ekki bara gömul dæmi, heldur einnig ný.

Í flokki okkar, Samfylkingunni, viljum við að þessi viðhorf verði sett í öndvegi og aðgát höfð í hverju skrefi, rannsóknir séu áreiðanlegar og unnar með vönduðum og viðurkenndum aðferðum og síðast en ekki síst að eftirlitsstofnanir hafi fjárhagslega og faglega burði til að fylgja því eftir að farið sé að leikreglum. Þarna er pottur brotinn á mörgum sviðum í atvinnulífi á Íslandi eins og dæmin sanna.

Í laxeldisgreininni kalla rekstraraðilar sjálfir eftir skýrum reglum og leiðsögn og vilja styrka umgjörð. Eftirlit á að vera öflugt og greinin hefur burði til að greiða fyrir það sjálf með aðstöðugjöldum eða hvað við köllum þau, afnotagjöldum. Af hverju nefnum við þau ekki auðlindagjöld? Frumvarp um gjaldtöku á auðvitað að vera í umræðunni samhliða þessu frumvarpi eða jafnvel vera hluti af því. Ég hef vonda tilfinningu fyrir því að það skuli ekki vera gert samhliða framlagningu á frumvarpinu. Það verður að taka afstöðu til þess hið fyrsta og hið bráðasta og það er ekkert sem þarf að tefja. Gildistaka á slíku frumvarpi getur verið með ýmsum hætti.

Úti um víða veröld, herra forseti, er stefnt að auknu fiskeldi. Það er ekki tilviljun að öll þau lönd sem geta komið fiskeldi við stefna að aukningu þess. Það á við um Noreg, Írland, Skotland, Færeyjar, Bandaríkin og Kanada. Hið mikla Evrópusamband ætlar að beita sér með beinum hætti til að auka hjá sér fiskeldið. Þessi lönd og ríkjasambönd gera sér nefnilega grein fyrir því að eina leiðin fram á veginn í efnahagslegu tilliti liggur í gegnum aukinn útflutning og þar getur fiskeldið skipt verulegu máli.

Ban Ki-moon, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að fiskeldi sé til mikilla hagsbóta fyrir allan heiminn. Það vinni gegn loftslagsbreytingum, stuðli að sjálfbærum aðferðum í fæðuöflun, sé drifið áfram af tilfinningu fyrir samfélagslegri ábyrgð og stuðli að fæðuöryggi fyrir jarðarbúa. Þessi orð lét Ban Ki-moon falla í ræðu á ráðstefnu sem haldin var í Stavanger fyrir skömmu um matvælaframleiðslu í hafinu. Í máli hans kom m.a. fram að fiskeldi sé sú matvælaframleiðsla sem vaxi hraðast í heiminum um þessar mundir. Fiskeldi standi nú undir nær helmingi af allri fiskneyslu í heiminum. Fiskeldi hafi stuðlað að auknu fæðuöryggi, dregið úr fátækt, aukið viðskipti og skapað atvinnutækifæri víða um heiminn.

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að gera orð Ban Ki-moon að mínum lokaorðum, með leyfi forseta:

„Heilbrigð höf eru nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðri jörð og heilbrigðu lífi.“

„Starfsemin er gífurlega mikilvæg fyrir alþjóðlega viðleitni til að vernda og stjórna á varfærinn hátt hafsvæðum okkar.“