149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Lífeyrissjóðirnir skipta okkur miklu máli, sérstaklega þegar aldurinn færist yfir. Um leið og við ætlum þeim stórt hlutverk er tekist á um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða og þar eru uppi ýmis sjónarmið. Þá umræðu þurfum við m.a. að útkljá hér í þinginu.

Margir lífeyrisþegar eru ósáttir með hvað þeir hafa upp úr krafsinu þegar til kemur, hafa staðið í þeirri trú að lífeyrissjóðir kæmu þeim til bjargar eftir langtímasöfnum til áratuga.

Ég ætla hér í dag að nefna bara einn lítinn anga flókinna þátta í þessu sambandi en það er fræðsla og upplýsing til sjóðfélaga um nýtingu réttinda. Tímasetningar geta skipt þar máli og allmargir sjóðfélagar hafa vaknað upp við erfiðan draum, búnir að missa af lestinni. Málið varðar nefnilega skiptingu ellilífeyrisréttinda milli hjóna og sambúðaraðila. Þessi skipting réttinda þarf að gerast með formlegum hætti með samningi við lífeyrissjóði og getur varðað miklu en gerist ekki sjálfkrafa. Við búum nefnilega enn við ójafnvægi í áunnum réttindum.

Ég hef orðið var við dæmi um að hjón og sambúðarfólk hafi rætt þetta sín á milli, verið sammála en ekkert aðhafst og tíminn liðið hjá. Þetta þarf nota bene að gerast í síðasta lagi 64 ára og fyrir 65 ár aldur. Eftir það verður engu breytt, það er of seint. Þetta getur verið mikið hagsmunaatriði varðandi afkomu eftirlifandi maka og snertir fjölmarga í samfélaginu, örlagaárið áður en við náum 65 ára aldri.

Virðulegur forseti. Milljónir manna dást að tónlist Bítlanna. Það er verðug afmælisgjöf handa fjölskylduvinum að færa þeim lagasafn þeirra. Það ætti að vera öndvegisgripur á hverju heimili. Þar má finna ótal söngva sem vert er að setja á grammófóninn þegar halla fer í þennan aldur eða svo sem á hvaða aldri sem er. Sígildi óðurinn um það þegar við verðum orðin 64 ára, með leyfi forseta, „When I'm sixty four“, ætti t.d. að vera fólki á þessu reki hollur gleðisöngur og (Forseti hringir.) góð áminning um að huga vel og tímanlega að lífeyrisréttindum sínum.