149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvort Samfylkingin vill hækka eða lækka skatta. Nú var sagt að það ætti að lækka skatta en tillögur Samfylkingarinnar fyrir fjármálaáætlun fyrir ári síðan fjölluðu um skattahækkun upp á u.þ.b. 25–35 milljarða. (Gripið fram í.) Það voru viðbótarskattar til að eyða meira. Ég segi bara: Það er ekki endalaust hægt að bæta í ríkisútgjöldin. Við höfum verið að reka þokkalega aðhaldssama ríkisfjármálastefnu sem þó hefur tryggt að frumgjöld ríkisins hafa verið að vaxa inn á málefnasviðin og við höfum skapað það svigrúm með því að taka til á skuldahliðinni. Stöðugleikinn sem hv. þingmaður kallar eftir birtist okkur í tiltölulega lágri verðbólgu um langt skeið. Hann birtist okkur líka í einhverjum lægstu raunvöxtum sem við höfum nokkru sinni séð og vaxtastigið á Íslandi, miðað við það hvar við erum í hagsveiflunni, er tiltölulega lágt í sögulegu samhengi. Vaxtamunur við útlönd er minni en oftast áður hefur verið og það eru tækifæri til að lækka vexti frekar og viðhalda lágri verðbólgu ef við spilum saman, opinber fjármál og vinnumarkaður. (Forseti hringir.) Það eru sannarlega viðkvæmir tímar og ég ætla að vera einn þeirra sem vekja athygli á því hversu mikilvægt er fyrir stöðugleikann að farsæl niðurstaða fáist í því efni.