149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:12]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir hans innlegg.

Á hausti sem leið skipaði hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að koma með tillögur um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði og skilaði hópurinn tillögum í lok janúar sl.

Formaður hópsins, Jón Sigurðsson, kom fyrir velferðarnefnd í lok febrúar ásamt félagsmálaráðherra til að kynna nefndinni vinnuna. Kom fram í máli Jóns að þetta hefði verið góð vinna, en alls voru 16 manns í hópnum. Niðurstaðan var samhljóða; að vissulega þyrftum við að gera lagabreytingar en það mætti líka skerpa á ýmsum verkferlum sem til eru og gera stjórnsýsluna skarpari og gagnsærri. Kerfin þurfa að tala saman. Það skiptir miklu máli. Það virðist sem upplýsingahindranir hafi verið á milli stofnana í þessum málum þar sem erfiðleikar og brot koma upp. Það þarf að vera samstarfsvettvangur fyrir ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins og það þarf að gera boðleiðir styttri. Það kom fram líka að málsmeðferð tæki of langan tíma. Það er ekki viðunandi þegar fólk er í vondri stöðu á vinnumarkaðnum og því viðkvæmara fyrir bellibrögðum og svikum. Hér er oft um að ræða fólk sem hefur veikan félagslegan bakgrunn, fólk sem á erfitt með að standa á sínu og þekkir illa rétt sinn. Þess vegna er mjög mikið atriði að stytta málsmeðferðartímann og auðvelda eftirlit. Það er nauðsynlegt að komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins eins og tillögurnar báru með sér. Þetta skiptir allt máli.