149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Varðandi þá spurningu sem ég skildi eftir ósvaraða úr fyrra andsvari þá er ég kannski fyrst og fremst að gagnrýna það og ég tel ekki raunhæft að leggja upp með fjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir því að ríkissjóður hafi tekjur af launahækkunum í samfélaginu sem eru áætlaðar talsvert meiri en ríkissjóður ætlar síðan að diska út til eigin launþega og það sé sett fram með mjög loðnum og óskýrum hætti að þeim mismun verði mætt með óskilgreindri hagræðingu. Það væri heiðarlegra alla vega að svara því skilmerkilega hvar sú hagræðing eigi að verða af því að þarna er kominn afkomubati fyrir ríkissjóð, innbyggður, getum við sagt, sem ég tel að eigi að vera skýrar svarað.

Hvar er hægt að hagræða? Það er hægt að hagræða í öllum ríkisrekstri. Aukin sjálfvirknivæðing, aukin tækninýting. Hagræðing er viðvarandi verkefni í öllum rekstri. Því miður virðist enginn áhugi í ríkisrekstri vera á hagræðingunni fyrr en að kreppir. Þá eru stofnaðir hagræðingarhópar.