149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þori ekki að fara með minningar mínar um atkvæðagreiðslur, þó að ég telji mig nú ekki hafa farið rangt með endanlega atkvæðagreiðslu um opinber fjármál áðan, en ég man ekki betur en að þingmenn Viðreisnar hafi lagst gegn hækkun fjármagnstekjuskatts. Ég fagna því ef þingmenn Viðreisnar vilja núna horfa sérstaklega til skattahækkana á þá auðugu í samfélaginu. Það er mjög jákvætt. Mig minnir að þingmenn flokksins hafi lagst gegn hækkun fjármagnstekjuskatts á síðasta ári. (ÞKG: Hvernig væri að svara?)

Með því að festa viðmiðin, eins og ég nefndi áðan, erum við að koma í veg fyrir að sú þróun endurtaki sig sem orðið hefur í skattkerfinu undanfarin ár, að auka ójöfnuð.

Hv. þingmaður biður mig að svara. Ja, það kom skýrt fram áðan í mínu svari og ræðum og líka hjá hæstv. fjármálaráðherra í dag, ef hv. þingmaður var að hlusta, (Gripið fram í.) og hæstv. fjármálaráðherra sagði í dag: Það sem er gott við þetta er að við erum með mikinn afgang og varasjóð þannig að við erum í stakk búin til að mæta áföllum án þess að fara að skerða útgjöld til mikilvægra málaflokka. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af ósætti innan ríkisstjórnarinnar.