149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra ræddi þjóðarsjóð í framsögu sinni sem rímar við það sem ég sá á blaðsíðu 106, með leyfi forseta:

„Með tilkomu aukinna arðgreiðslna frá Landsvirkjun bætast við hjúkrunarrými sem þegar eru á framkvæmdaáætlun og verður unnt að byggja ríflega 130 ný hjúkrunarrými til viðbótar.“

Mig langar aðeins að víkja að þessu. Ég taldi arðgreiðslurnar eiga að fara í svokallaðan þjóðarsjóð og ávaxtast þar. Er það röng hugsun hjá mér?

Síðan er haldið áfram lengra inni í skjalinu, með leyfi forseta:

„Með tilkomu Þjóðarsjóðs bætast við hjúkrunarrými sem þegar eru á framkvæmdaáætlun og verða þau þá alls um 920 talsins.“

Það virðist vera búið að ráðstafa fjármunum sem eiga að fara í þjóðarsjóð í þessi rými. Ég er ekki endilega að hengja mig í fjölda rýma í sjálfu sér heldur meira að velta því upp hvernig þjóðarsjóðurinn eigi að virka.

Ég vil líka nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hún ætli ekki að tryggja fjármagn í rekstur hjúkrunarheimila, eins og kom fram áðan. Það sem ég velti mest fyrir mér er að síðast þegar ég vissi voru þeir peningar sem ætlaðir voru á fjárlögum í desember fastir hjá Sjúkratryggingum Íslands. Það er atriði sem ég myndi gjarnan vilja fá svar við.

Að því sögðu vil ég lýsa ánægju minni með að áhersla sé á þjálfun og þverfaglega endurhæfingu utan stofnana. Það segir mér að einnig er átt við inni á heimilum fólks.