149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Aðeins til að halda áfram þessari umræðu þá er í gangi núna óformlegt samráð, sem er gríðarlega mikilvægt að mínu mati, milli ráðuneytisins og formanna sjúkraliðafélagsins, hjúkrunarfræðingafélagsins og ljósmæðrafélagsins. Við teljum afar mikilvægt að þar sé samtal í gangi á öllum stigum, ekki síst þegar kjarasamningar eru í gangi. Þeir eru hafnir. Viðræður eru hafnar. Við erum í miðjum klíðum núna.

Ég get alveg sagt það hér og ég get sagt það hvar sem er að ég tel löngu tímabært að við horfumst í augu við það hversu óheilbrigt það er að vera með kynjaskiptan vinnumarkað, sem er svo áberandi á Íslandi, og auk þess alveg greinilegan kynjamun í launum, sem við hljótum að fara að horfast í augu við að sé kominn tími til að leiðrétta.