149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Áður en ég svara spurningunni vildi ég nefna líka að það er sömuleiðis gert ráð fyrir 100 millj. kr. hækkun árlega til að hægt sé að standa undir þeim skuldbindingum sem þarf. Við t.d. sjáum það úti á Snæfellsnesi, sem dæmi, því að fjöldi ferðamanna er þar svo mikill, að kerfið eins og það er núna dugir ekki fyrir það svæði. Við gerum ráð fyrir að uppfæra þetta í samræmi við hækkun vísitölu verðlags á liðnum árum.

Þess vegna er mikilvægt að framvegis taki liðurinn breytingum eftir þeim þáttum sem raunverulega hafa áhrif á hann, eins og t.d. dreifing ferðamanna.

Þetta sýnir líka hvað ferðaþjónustan er með anga sína víða um samfélagið.

Hvað varðar stórnotendur er það þannig að þetta á við um viðskiptavini dreifikerfisins. Stórnotendur eru ekki í viðskiptum við dreifikerfið heldur beint við flutningskerfið. Það er í rauninni bara hin kerfislæga ástæða fyrir því að þetta er með þeim hætti sem það er.