149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:29]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað þarf ríkið að taka af skarið þegar staðan er eins og hún er í dag. Það er náttúrlega þekkt úti um allan heim að ríki komi inn með einhvers konar fjárfestingarsjóðum og öðru til þess að gangsetja nýsköpun og koma þeirri vél í gang.

En ég er í sjálfu sér að spyrja um kannski aðeins „núansaðri“ þátt sem er hvort það sé ekki spurning um framtíð atvinnuvega okkar og hagkerfis að vaxtastigið komist niður fyrir hagvöxt.

Vegna þess að með því verða til ýmsir hvatar til fjárfestinga sem eru ekki til í dag. Það er orðinn langþreyttur aðskilnaður á stjórn efnahagsmála og stjórn atvinnumála í þessu landi. Vegna þess að þetta er náttúrlega nátengt og mun tengdara en hefur verið. Þannig að ég trúi því að hæstv. ráðherra hafi góðan skilning á þessu. Það heyrist á hennar fyrra svari. En við verðum auðvitað að reyna að takast (Forseti hringir.) heildstætt á við þetta.