149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það væri lengi hægt að ræða um ferðaþjónustuna. Mig langar að snúa mér aðeins að nýsköpuninni, sem er meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni þjóðarinnar, eins og fram kemur í áætluninni.

Ísland stendur að ýmsu leyti vel í nýsköpun og þekkingariðnaði. Þar er gróska. Nú er unnið að mótun nýsköpunarstefnu. Þá er auðvitað lykilatriði að sjá að fjármálaáætlunin skapar svigrúm til að vinna samkvæmt þeirri stefnu þegar hún verður tilbúin. Það er ætlunin að auka útflutningsverðmæti, hagnýta tæknilausnir í þágu loftslagsmála og að ný störf skapist í þekkingargreinum. Eina nýjungin í nýsköpunarumhverfinu er Auðna – tæknitorg, sem hefur það hlutverk að sinna tækniyfirfærslu og hugverkavernd fyrir íslenskt vísindasamfélag til þess að nýta fjárfestinguna sem ríkið er að leggja í rannsóknir og þróun. Til þess að hún skili sér aftur til samfélagsins.

Er rekstur tæknitorgsins tryggður í áætluninni?

Svo finnst mér mjög spennandi verkefnin „umgjörð fyrir stafrænar smiðjur“ (Forseti hringir.) og „mótun matvælastefnu“. Þannig að ef ráðherra (Forseti hringir.) hefði tíma til að segja okkur eitthvað meira um þau væri það áhugavert.