149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Gott að hún er viljug til að skoða þetta en sérkennilegt að þessi mál lendi milli stafs og hurðar vegna þess að hér er um rosalega stóran þátt í okkar atvinnustarfsemi að ræða og snertir auðvitað hverja einustu fjölskyldu. Nágrannaþjóðir okkar stunda mjög miklar og dýrar rannsóknir sem miða að því að þróa íbúðarhúsnæði. Það er mjög nauðsynlegt. Í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hefur fjölbýlishúsið þróast gríðarlega á síðustu árum og áratugum á meðan okkur fer aftur vegna þess að einu lausnirnar sem við sjáum er að skera niður í rauninni, jafnvel af gæðum bygginga. Við erum ekki að leita nýsköpunar.

Ég bendi ráðherra á að með því að leggja mikla peninga í þessar rannsóknir munu sparast gríðarlegir peningar í framtíðinni, svo ég tali nú ekki um mikilvægi heilsu fólks.

Að lokum ítreka ég spurninguna: Skýtur það ekki skökku við að skera niður til háskóla á sama tíma og menn leggja vissulega meira í nýsköpun?