149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun og að tryggja fjármagn til ákveðins tíma. Í henni er gert ráð fyrir, eins og hv. þingmaður bendir á, að ráðist verði í lengingu fæðingarorlofs á árunum 2020 og 2021. Það liggur ljóst fyrir að núverandi fæðingarorlofslöggjöf, sem sett var að meginefni á árinu 2000 og er því 20 ára á næsta ári, þarfnast endurskoðunar. Þess vegna, samhliða þessari lengingu, ráðgerum við að ráðast í heildarendurskoðun á þessari löggjöf, kynna hana á afmælisárinu, sem er á næsta ári, vegna þess að þessi löggjöf var á sínum tíma, þegar hún var sett, ein framsæknasta fæðingarorlofslöggjöfin í heimi. Ég held að við getum almennt verið mjög stolt af því að hafa tryggt foreldrum þennan rétt. En það eru atriði í henni sem þarf að huga að og hv. þingmaður nefnir hér stöðu einstæðra foreldra. Það hefur líka verið bent á atriði varðandi námsmenn og samspil á milli þess ef þú ert ekki á vinnumarkaði eða ert í námi og eignast svo börn og fæðingarorlofskerfið grípur þig ekki og þú átt kannski ekki heldur rétt á fæðingarstyrk o.s.frv. Síðan hafa komið athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis við ákveðin atriði þannig að ég held að fullt tilefni sé til að ráðast í heildarendurskoðun á löggjöfinni. Það er markmiðið að gera það.

Við boðuðum það samhliða framlagningu á þessari fjármálaáætlun að ætlunin væri að skipa nú á vordögum hóp með helstu hagsmunaaðilum sem færi yfir öll þau álitamál sem komið hafa fram við þessa löggjöf, sem hefur að mörgu leyti staðist tímans tönn þrátt fyrir atriði sem þarfnast breytinga. Það er svar mitt við spurningu þingmanns að þar erum við að taka öll þessi atriði inn og ég vonast til þess að á næsta ári getum við kynnt heildstæða löggjöf þar sem við förum yfir ákveðin atriði. Þá verður að koma í ljós hvað (Forseti hringir.) af því er þar inni. En klárlega er þetta atriði sem hv. þingmaður nefnir eitt af þeim atriðum sem liggja undir í þeirri heildarendurskoðun.