149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þann áhuga og elju sem hún sýnir til að efla verk-, iðn- og starfsnám og tækninám á Íslandi. Þetta skiptir mjög miklu máli, enda er þetta ein af stóru áskorununum og orðið eitt helsta viðfangsefnið á framhaldsskólastiginu vegna þess að þarna getum við gert betur.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að þetta tengist brotthvarfi. Já, ég tel að það geri það. Ég held að börnin okkar eða unga fólkið finni sig jafnvel ekki í skólakerfinu og það er þá okkar að vekja athygli á því sem er í boði. Það er mjög mikið í boði á framhaldsskólastiginu en það er eins og að börnin okkar eða unga fólkið átti sig ekki eins vel á því. Þess vegna hef ég beint sjónum að því að viðmiðunarstundataflan á grunnskólastiginu sé uppfyllt hvað varðar þessar valgreinar, vegna þess að það hefur ekki verið gert. Við verðum að kynna þetta fyrr. Það er of seint að mínu mati að byrja á því í 8. eða 9. bekk. Þetta þarf að gerast mun fyrr. Ég hef horft nokkuð mikið til Noregs vegna þess að Norðmenn hafa gert þetta býsna vel og liður í því hjá þeim er einmitt að nemendur átti sig á því sem er í boði.

Hv. þingmaður spurði líka um þær breytingar sem eru fram undan á námslánakerfinu. Nú geta þeir sem sækja nám í starfs-, iðn- og tækninámi fengið lán á framhaldsskólastiginu þannig að ég sé ekki, eins og staðan er í dag, að við munum setja frekari hvata hvað það varðar. Ég held fremur að það þurfi að byrja fyrr að kynna hvað er í boði og breyta hugarfarinu þannig að ungt fólk velji sér nám fremur en skóla.