149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:23]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi skýru svör. Það kom margt gott fram í hennar máli og ég tek undir mikið af því.

Mig langar þá að venda kvæði mínu í kross og spyrja hæstv. ráðherra um fjölmiðla. Í umræðu um stöðu fjölmiðla virðast margir sniðganga þá stöðu sem Ríkisútvarpið hefur, hvernig hún hefur áhrif, skekkir samkeppnisstöðu og annað þegar við ræðum um stöðu frjálsra fjölmiðla. Að mínu mati mun það ekki duga að stoppa í göt, þó að það sé mat ýmissa að ekki eigi að hrófla við neinum hætti við Ríkisútvarpinu. Ég veit, eins og hægt er að lesa úr fjármálaáætluninni, að ekki er skipulagt að breyta neinum sérstökum atriðum varðandi Ríkisútvarpið. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún að það sé skynsamlegt að breyta með einhverjum hætti rekstrarformi RÚV? Á ég þá við t.d. að taka það út af auglýsingamarkaði og setja á fjárlög og heildartekjur.