149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem vonsvikinn hingað upp, ég verð að vera heiðarlegur, því að eins og ég hef farið yfir í ræðum á undanförnum mánuðum hlakkaði ég til að sjá útfærslu á ályktun Alþingis um stafrænar smiðjur í fjármálaáætlun. Því miður sjást þess einungis merki á einum stað, í kaflanum um nýsköpun þar sem það er sameiginlegt ábyrgðarhlutverk atvinnumálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Þar er sagt að mótuð verði umgjörð fyrir stafrænar smiðjur á árunum 2020 –2022, á þremur árum.

Stafrænar smiðjur eru mjög vel skipulagt og skilgreint verkefni. Það þarf ekki að móta umgjörð fyrir stafrænar smiðjur, þær eru tilbúnar til þess að verða settar í gang. Allt skapalónið er til. Það er hægt að fara í nánari vinnu við að bæta við, eins og hefur verið gert víðast hvar, t.d. í gamla Iðnskólanum í Reykjavík þar sem hljóðveri og ýmsu hefur verið bætt við, mjög flott verkefni.

En hérna stöndum við eftir að Alþingi samþykkti einróma áætlun um stafrænar smiðjur og ekki nóg með það heldur bætti nefndin í upprunalega þingsályktun, gerði betur en ég þorði að vona þegar ég lagði fram þá áætlun. Hún bætti við skilgreiningu um að stafrænar smiðjur ættu að ná til grunnskólanna.

Eins og ég segi varð ég fyrir vonbrigðum með að sjá ekki fleiri merki um framfylgni þeirrar þingsályktunar í fjármálaáætlun og langar að spyrja ráðherra af hverju svo er.