149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns um þann vanda er varðar brotthvarfið. Brotthvarf á Íslandi hefur verið mikið, líklega vegna þess að atvinnustig hefur verið ansi hátt á Íslandi. Mörgu ungu fólki er boðin vinna, það heldur jafnvel áfram í sumarstarfinu sínu og kemur ekki aftur inn í framhaldsskólann. Þetta er auðvitað ekki gott og við viljum hvetja til þess að það séu fleiri sem klári. Við höfum verið að sjá jákvæða þróun, við höfum verið að fara úr 44% yfir í 50%–56% en við þurfum að gera meira. Varðandi sálfræðiþjónustuna höfum við verið að horfa upp á mismunandi form og hvernig hún hefur verið kynnt á framhaldsskólastiginu. Í sumum framhaldsskólum og í ansi mörgum eru sálfræðingar nú þegar inni — ég nefni Menntaskólann á Akureyri — og er með ólíkindum að sjá hve miklu máli það skiptir, þ.e. ákveðnar forvarnir, og hvaða árangri þau hafa náð hvað þetta varðar.