149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hún nefndi þetta kunnulega umræðu. Umræðan er ekkert furðulegri en það að löggæslumönnum hefur fækkað um 20 frá 2012–2018. Menntuðum lögreglumönnum, vissulega, en er hægt að bjóða upp á að 85 afleysingamenn séu taldir með í þessu? Það eru náttúrlega menn sem eru algerlega ómenntaðir og eru að leysa af. Og jafnvel þótt sú tala sé tekin með vantar samt 170 lögreglumenn frá því sem átti að vera besta löggæslan 2012. Síðan hefur íbúum fjölgað o.s.frv.

Ég ætlaði að spyrja um Landhelgisgæsluna, en ég ætla að enda mál mitt á því að spyrja um löggæsluáætlunina. Hvenær má vænta hennar? Þegar ég starfaði í lögreglunni vorum við að vinna að þessari löggæsluáætlun og það var 2014. Nú er 2019, fimm árum seinna, og löggæsluáætlun er ekki enn þá fram komin. Nú sé ég í fjármálaáætlun að hún sé væntanleg á vorþinginu. (Forseti hringir.) Þá vil ég bara spyrja: Eigum við von á henni á þessu vorþingi?