149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir einmitt mikilvægi þess að vinna með atvinnulífinu og félagasamtökum í að ná árangri. Hvað vísinda- og rannsóknastarf varðar er það líka ákveðið verkefni að vera með gott samstarf við háskólasamfélagið og vísindasamfélagið í þeim efnum.

En þá langar mig að spyrja aðeins út í, og fá tækifæri hér til að nefna það við ráðherrann, um fráveitumál annars vegar og urðun og endurvinnslu sorps hins vegar. Það er sorglegt að sjá hver staða okkar er í endurvinnslu heimilissorps. Við höfum sett okkur markmið um 35%, ef ég skil þetta rétt, árið 2020 og 50% árið 2024. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að við náum þeim markmiðum?

Nú er þetta málaflokkur sem heyrir líka undir sveitarfélögin. Ég hef reyndar bent á það í þessum ræðustól, mér finnst að hæstv. ráðherra ætti bara að taka (Forseti hringir.) málaflokkinn yfir og svo gætum við fært einhver önnur yfir til sveitarfélaganna sem þau eru kannski betur í stakk búin að sinna í nærþjónustu. En þetta er sannarlega heildstætt mál sem þarf að horfa yfir landið allt með og finna bestu (Forseti hringir.) og skynsamlegustu lausnirnar.