149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

úthlutunarreglur LÍN.

[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það kann að vera svekkjandi fyrir formann Samfylkingarinnar að það sé verið að gera svona mikið í þessum málaflokki. Ég skil vel að hann vilji taka þátt í þessari vegferð því að hún gengur býsna vel. Hann spyr um spekileka. Þá get ég upplýst þingheim um það að ráðherra sem hér stendur átti fund með hagstofustjóra og var að óska eftir því í fyrsta sinn að við færum yfir þessa tölfræði, fengjum upplýsingar um menntunarstig aðfluttra og brottfluttra frá landinu. Í fyrsta sinn er verið að gera þetta.

Varðandi kjör námsmanna þá er kerfisbreytingin og nýja kerfið sem ég er að kynna, og kemur fram í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni, þannig að við ætlum að lækka höfuðstól lána hjá námsmönnum um 30%. Það þýðir að par sem hefur klárað nám í Svíþjóð hefði skuldað um 16 milljónir í gamla kerfinu en skuldar tæpar 7 milljónir í nýja kerfinu. Þetta er grundvallarbreyting á kjörum íslenskra námsmanna.