149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir hlutir gerast með breiðri samvinnu og vil ég byrja á því að fagna lífskjarasamningunum sem eru afurð margra mánaða samvinnu fjölda fólks og eiga eftir að skila fjölda fólks ávinningi. Tengdar samningunum eru tillögur starfshóps um að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast húsnæði og þær falla vel að nýju hlutverki Íbúðalánasjóðs.

Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað er of hár. Ráðstöfunartekjur ungs fólks hafa hækkað minna en annarra síðustu árin og verð á hentugu húsnæði hefur hækkað mikið. Stór hluti leigjenda vill komast í eigin íbúð. Hlutfall fólks í leiguhúsnæði er hærra en fyrir áratug og hlutfall lágtekjufólks í þeim hópi hefur hækkað hlutfallslega. Langflestir leigjendur vilja búa í eigin húsnæði og við því er verið að bregðast.

Meðal tillagna eru tvær nýjar tegundir húsnæðislána, startlán og eiginfjárlán. Með startlánum myndi ríkið veita viðbótarlán með háum veðhlutföllum og hagstæðum vöxtum til afmarkaðra hópa en með eiginfjárláni myndi ríkið veita lán fyrir 15–30% af kaupverði og það án afborgana. Báðar leiðirnar nýtast hópum sem nú eiga erfitt með að standast greiðslumat og gætu einnig nýst sem hvatar til byggingar hentugs og hagkvæms húsnæðis. Meðal annarra tillagna eru rýmkuð skilyrði um fyrstu kaup og frestun afborgana af námslánum.

Ég trúi að þegar tillögurnar komast til framkvæmda hafi það mikla þýðingu fyrir þessa hópa og þarna erum við m.a. að tala um heimili barna, ungt fólk, öryrkja og fólk sem vegna einhvers konar áfalla hefur tapað eignum. Það verður áhugavert og verðugt verkefni þegar tillögurnar koma nánar útfærðar sem frumvörp til umfjöllunar Alþingis.