149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég var að tala um þriðja orkupakkann þar sem eru auknar kröfur um aðskilnað framleiðslu og dreifingar. Það er vissulega rétt að aðskilnaður kom fyrr, en það eru auknar kröfur í þriðja orkupakkann. Ég er bara að tala um þessar auknu kröfur. Þurfum við undanþágu gagnvart þessum auknu kröfum? Þurfum við undanþágu gagnvart gagnsæinu og sjálfstæðu eftirliti? Þurfum við undanþágu gagnvart neytendaverndinni sem kemur með þessum pakka, ekki því sem hefur verið í fyrsta og öðrum? Það var talað um þá á annan veg. Nú erum við að tala um þriðja orkupakkann.

Til viðbótar, þar sem hv. þingmaður kom inn á sæstrenginn: Við getum alveg lagt sæstreng núna. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að lagður yrði sæstrengur — umfram það sem bætist við í þriðja orkupakkanum. Það yrði nákvæmlega sama ferli sem þyrfti þar að koma til, það er aðkoma ríkisstjórnar og Alþingis. Það sem bætist við með þriðja orkupakkanum? Það myndi ekkert gerast. Það yrði nákvæmlega eins ferli. Við þyrftum að segja nei hérna á þingi til að stoppa lagningu sæstrengs. Því það að leggja sæstreng með öllu því sem því fylgir, kostnaðinum og umfanginu, spurningum um hvar þyrfti að virkja og hvernig sem það er: Það væri bara rugl að fara út í það. Ég er alveg sammála því.

En það er ekkert sem þriðji orkupakkinn (Forseti hringir.) bætir við núverandi fyrirkomulag sem (Forseti hringir.) krefur okkur um að leggja þann sæstreng, ekkert umfram (Forseti hringir.) það sem við þyrftum að gera annars. Við segjum bara nei hérna. (Forseti hringir.) Málið dautt.