149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir nefndarálitið og ræðu hennar um þessi mál sem brennur á mörgum, að vera með þetta kerfi á Íslandi. Við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að vera miklir áhugamenn um öfluga byggð á landsbyggðinni og viljum sjá landið okkar vaxa og dafna og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess.

Ég velti einu fyrir mér í sambandi við strandveiðarnar: Hafa þær skilað þeim tilætlaða árangri að auka atvinnuþátttöku og atvinnu á þeim svæðum? Ég velti því stórlega fyrir mér. Og hvort þetta kerfi sé virkilega hagkvæmt. Ég fylgist náttúrlega svolítið með sjávarútvegi og hef farið víða. Eins og hv. þingmaður sagði réttilega áðan eru skiptar skoðanir um kerfið. Það eru ekki allir ánægðir með hvernig því er stýrt og hvernig það hefur verið. Þetta hefur t.d. ekki aukið nýliðun eins og var kannski áætlað í upphafi. Er það ekki bara sóun að vera með þetta kerfi? Það kostar allt of mikið að fara af stað í þetta.

Svo nefndi hv. þingmaður áðan í ræðu sinni að bátum væri að fækka. Er það ekki vegna þess að þetta er óhagkvæmt? Fyrir utan það að úti á landi, eins og á Austfjörðum og Vestfjörðum og annars staðar, er ekkert verið að vinna fisk. Hann er allur keyrður í burtu. Það virðist vera þannig að einu mennirnir sem fái vinnu í kringum þetta séu lyftaramennirnir, sem taka á móti fiskinum á bryggjunni þegar trillukarlarnir koma inn, sem margir hverjir eru með veiðarnar sem hobbí, menn sem starfa eitthvað annað.

Það er alveg eins með byggðakvótann líka. Það má alveg setja spurningarmerki við það. Menn fá fiskinn á bryggjuna, setja hann inn í bíl og keyra hann síðan suður eftir til að vinna hann.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að taka þessi 10.000–11.000 tonn og bjóða þau upp og nota afraksturinn í að byggja upp og styrkja byggðir og auka atvinnuuppbyggingu á annan hátt í byggðunum?