149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan við á sínum tíma innleiddum kerfi til strandveiða. Miklar væntingar voru bundnar við þá lagasetningu á sínum tíma og sýndist sitt hverjum þá. Svo hefur, má segja, kerfinu vaxið fiskur um hrygg og meiri skýrleiki færst á það hvaða ávinningur er undir. Á þessum tíma er auðvitað búið að rýmka heilmikið þær heimildir sem upphaflega var lagt af stað með í strandveiðar. Þrátt fyrir það höfum við verið að horfa á það að kerfinu hefur verið að hnigna, ef svo má segja, vegna þess að færri hafa stundað þessar veiðar en upphaflega var vænst og mátti byggja þá skoðun á þeirri reynslu sem fékkst fyrstu árin. Leiða má líkum að því að skýringin sé sú að það sé hreinlega ekki nægilega góð afkoma í þessu kerfi. En það verður ekki um það deilt að þetta hefur gefið ákveðnum aðilum tækifæri. Þetta hefur aukið líf í höfnum yfir sumartímann úti um land og margt af því er mjög jákvætt. Það hefur að því leyti ekki verið mikill ágreiningur um að strandveiðar ættu einhvern rétt á sér. Ég hef verið á því og staðið ásamt öðrum að því að heimildir hafa verið rýmkaðar á undanförnum árum og þær kerfisbreytingar gerðar sem tilraun var gerð með á síðasta ári.

Það er verið að lögfesta með þessu frumvarpi breytingar sem eru mjög afgerandi og takmörkuð reynsla er komin á. Það er áhyggjuefni að ekki skuli hafa farið fram sú úttekt á reynslu síðasta árs sem lagt var upp með. Skipting aflaheimilda, eða afnám þessarar skiptingar milli landsvæða, hafði ekki áhrif í fyrra, en margir höfðu af því áhyggjur og það getur auðvitað ráðist af svo mörgum þáttum að ekki er hægt að segja til um það frá ári til árs hvernig úr því vinnst. Það þarf ekki annað en að veiðar séu, eins og menn þekkja, dyntóttar, jafnvel eftir árstíðum og milli svæða. Það er ekki á vísan að róa í þeim efnum, hvar veiðist á hvaða tíma, og ekki er heldur hægt að segja til um það hvernig gæftir verða, hvernig veðurfarslegar aðstæður verða fyrir sjómenn hringinn í kringum landið á hverjum tíma til að sækja sjó.

Við höfum aukið, eins og ég segi, aflaheimildirnar. Nú er verið að leggja til að þær fari í 11.000 tonn. Búið er að gera þær breytingar að ufsi er eiginlega fyrir utan þetta kerfi og eru það ráðstafanir sem ættu að geta haft í för með sér að aukin hagkvæmni og betri afkoma verði í strandveiðum. Einhverjar væntingar eru alla vega bundnar við það. Ráðherra er síðan heimilt að framlengja veiðarnar ef svo ber undir að allur afli sem áætlaður er í þessu klárast. Sá afli er hluti af félagslegu kerfi fiskveiðistjórnarkerfisins okkar, þar sem 5,3% eru tekin af öllum aflaheimildum og dreift í mismunandi ívilnandi þætti. Strandveiðar eru þar, m.a. línuívilnun, þarna eru rækju- og skelbætur og fleira má telja. Umræða hefur verið um það á undanförnum árum og tilraunir gerðar til að endurskoða skiptingu á þessum 5,3% pottum en án árangurs enn sem komið er.

Í nefndaráliti hv. atvinnuveganefndar segir að að mati hennar hafi dregið verulega úr líkum á því að stöðva þurfi veiðar vegna þessarar aukningar á aflaheimildum. En það er líka vitnað til þess að ráðherra hafi heimild til þess að auka heildarveiði svo að unnt verði að nýta alla tólf dagana í öllum fjórum mánuðunum sem hér eru undir. Það var eftir því tekið — alla vega tók ég eftir því í ræðu hv. formanns áðan — að hún talaði um að smábátasjómenn fengju að veiða í tólf daga í hverjum mánuði. Þannig að þegar er farið að vekja, eins og maður heyrir á smábátasjómönnum, væntingar um að ef aflinn klárast, aflamarkið klárast, verði bætt í. Á síðasta ári var hæstv. ráðherra mjög skýr með það að það yrði ekki gert; 10.200 tonnin væru hámarkið. Það er því bagalegt að hæstv. ráðherra sé ekki hér til staðar til að svara fyrir afstöðu sína í svo veigamiklu atriði í þessu máli, en hann er vant við látinn við embættisstörf erlendis og hef ég á því fullan skilning, það er ferð sem er mikilvæg og kom upp með skömmum fyrirvara. En afstaða ráðherrans í þessu hefði þurft að liggja fyrir.

Það eru ýmis atriði í þessu máli sem þarf að svara. Hv. formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, kom inn á það áðan að það stefndi í að afgangur væri af svokölluðum potti til línuívilnunar sem næmi nokkuð háum tölum í tonnum talið og gaf í skyn að nýta mætti það til að bæta enn frekar við í þetta kerfi. En við höfum ekki lokið vinnu við þennan félagslega pott. Við stöndum frammi fyrir fleiri vandamálum í sjávarútvegi en þeim sem snúa að strandveiðum. Við erum til að mynda með nokkur útgerðarfélög úti á landi, jafnvel í veikum byggðum, sem standa frammi fyrir því að grundvöllur er brostinn fyrir því sem hefur verið þeirra afkoma undanfarin ár. Ég er að vitna hér til humarveiða. Einnig má nefna útgerðir og sjómenn sem töldu sig fara með mjög skarðan hlut frá borði þegar lúðuveiðar voru bannaðar á svokölluð haukalóð. Öllum þessum aðilum hefur verið neitað um einhvers konar bætur á grundvelli þess að ekki sé svigrúm í kerfinu, en svo er allt í einu eins og endalaust svigrúm sé til að bæta í strandveiðar. Það fer ekki alveg saman hljóð og mynd í þessu, virðulegur forseti, þegar þetta er gert í þágu þess að efla litlar og meðalstórar útgerðir, að gæta þess að sá hlutur sem ákveðnar byggðir hafa haft sem lífsviðurværi, þegar kemur að sjávarútvegi, sé ekki að skerðast. Ég tel að það sé því mjög mikilvægt að menn horfi til þess, ef svigrúm er að myndast í þessum sjóði, hvernig menn geti leyst það mál án þess að horfa einungis til einhverrar viðbótar í strandveiðum. Það er mín skoðun að 11.000 tonn, plús þær ívilnanir sem hafa verið gerðar með ufsann, séu mjög ríflegar heimildir inn í þetta kerfi, innan félagslega þáttar fiskveiðistjórnarkerfisins.

Í nefndarálitinu er margt sem kallar á það að málið þarfnist endurskoðunar. Draga má þær ályktanir af því að málið sé alls ekki fullburða. Það er hægt að nefna hér, sem stendur í nefndarálitinu, að fyrir nefndinni hafi komið fram sjónarmið um að fyrirhuguð breyting verði gerð til bráðabirgða og ekki fest varanlega í sessi — og það hefur komið fram að það hafi m.a. verið sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga og það sé beðið eftir þessari skýrslu. Þá er líka hér órætt, sem oft hefur komið til tals, hvort skilyrða eigi löndun á þessum fiski til vinnslu á þeim svæðum, eins og við gerum með byggðakvóta til að mynda, atvinnusvæðum eða byggðum, sem aflanum er landað í. Þá er þetta enn frekar auðvitað að styðja við atvinnu og uppbyggingu í veikustu byggðunum og mikill munur á því, eða, eins og mikil brögð eru orðin að, að þessum afla er landað í gáma og þeir fara til Bretlands til fullnaðarvinnslu. Þetta er órætt og nefndin telur að þetta þurfi að skoða og nefnir það sérstaklega í nefndaráliti sínu að afli frá strandveiðum sé afar mikilvægur fyrir fiskmarkaði þegar samdráttur er í afla frá annarri útgerð og að þetta geti verið hryggjarstykki í vinnslu margra fiskvinnslufyrirtækja yfir sumarið og aflinn sé gæðahráefni. Það ber vissulega að fagna því að meðferð aflans í þessu kerfi veiða hefur farið mjög batnandi. Menn átta sig á því að því betri sem meðferð aflans er því meiri verða verðmætin og menn fá meira fyrir það sem þeir koma með að landi.

Nefndin leggur líka til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og atvinnuveganefnd fylgist áfram með þróun strandveiða í ljósi markmiða um eflingu strandveiða, eflingu smærri byggða og öryggi smábátasjómanna, og bendir á að samþykki liggi fyrir að í lok strandveiðitímabilsins muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu tveggja síðustu strandveiðitímabila og að skýrslan eigi að liggja fyrir 1. febrúar á næsta ári. Þetta er grundvallaratriði þegar við ræðum þetta mál og ég segi hér að málið sé ekki fullburða. Þessi leið, hún er ekki fullburða. Það er að mínu mati ekki ástæða til þess að lögfesta hana til framtíðar, sérstaklega þegar svo mörg vafaatriði eru tiltekin í nefndarálitinu sjálfu, af hálfu meiri hlutans og nefndarmanna allra, og líka í ljósi þess að Byggðastofnun þarf að skoða þetta í stóra samhenginu í þeirri úttekt sem hún mun gera. Það er t.d. öllum ljóst að aðstæður þær sem voru fyrir hendi þegar þetta kerfi fór af stað á sínum tíma eru breyttar. Ég er sérstaklega að vitna til byggða á Vestfjörðum, þær eru gjörbreyttar. Þar er komin til ný atvinnugrein sem ég og margir aðrir væntum mikils af, atvinnugrein sem er ekki bara verðmæt fyrir þessi svæði, til að efla byggð og auka atvinnu- og verðmætasköpun, heldur ekki síður fyrir þjóðarbúið. Gríðarlega mikilvæg. Ég er hér að tala um fiskeldi, sjókvíaeldi. Getur verið að í strandveiðunum gæti verið skynsamlegt að beita því, í ljósi nýrra aðstæðna á sumum svæðum, að enn frekar verði aukið í heimildir og svigrúm á öðrum svæðum á landinu sem ekki búa við þessa uppbyggingu og þennan stóra og sterka grunn sem er að myndast í atvinnulífinu? Það er eitthvað sem við hljótum að biðja Byggðastofnun um að skoða, að það verði skoðað í stóra samhenginu. Það má í raun halda því fram að margar af veikustu byggðunum séu á góðri leið með að verða einhverjar sterkustu byggðir á landsbyggðinni með þessari nýju stoð. Og þá kallar það á breytingar sem geta tekið til þessa kerfis, þessa félagslega kerfis í sjávarútvegi, sem hefur í gegnum tíðina einmitt verið hugsað til að styðja við þessar veiku byggðir.

Það er að mínu viti nauðsynlegt, og kannski ekki síst í ljósi reynslunnar af þessu í fyrra, að binda þetta eingöngu til þessa árs. Sterkustu rökin í því eru þau að þegar við ákváðum þetta í tilraunaskyni á síðasta ári var það skilyrt að úttekt skyldi fara fram af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins áður en næsta skref yrði stigið. Sú úttekt hefur ekki enn farið fram og engin viðleitni virðist hafa verið hjá ráðuneytinu eða hv. atvinnuveganefnd til að fylgja því eftir að slík úttekt verði gerð. Það eru auðvitað ekki góð vinnubrögð, virðulegur forseti. Erum við trygg fyrir því, ef þetta verður lögfest núna, að sömu vinnubrögð verði ekki viðhöfð? Einhverjir nefndarmenn hafa komið upp og sagt: Ja, við munum fylgja þessu eftir. Það voru líka heitstrengingar um það á síðasta ári. Það er því að ýmsu að hyggja og málið er kannski ekki eins sjálfsagt og það lítur út fyrir að vera þó að ég sé sannfærður um að góður hugur fylgir máli. Ég leggst ekki gegn meginmarkmiðum þessa máls. Ég er ekki að leggjast gegn því að við eflum og römmum inn strandveiðar og komum þeim í varanlegan farveg. En það er mikilvægt, líka í ljósi fyrirsjáanleika þeirra sem nota þetta sem eina af grunnstoðum undir litlum útgerðum, það eru vissulega dæmi um það — og ég held að það séu jákvæðar breytingar þegar verið er að gefa mönnum svigrúm til að fara út úr kerfinu. Margar litlar smábátaútgerðir sem eru á grásleppuveiðum hafa það sem eina grunnstoð undir sínu kerfi, vilja svo fara yfir í strandveiðarnar í ákveðinn tíma en það heftir þær að hausti að geta til að mynda ekki farið á makríl eða á handfæri þegar gæftir eru í ágúst og aflabrögð geta verið á það veiðarfæri og menn eiga jafnvel einhverjar aflaheimildir til að moða úr eða ná sér í þær á leigumarkaði sem hefur reyndar verið ágætlega hagfelldur á þessu fiskveiðiári.

Þegar þetta er allt haft í huga langar mig til að óska eftir því að frumvarpið gangi til nefndar á milli umræðna. Ég vil reyndar óska eftir því að þingheimur heimili að nefndin geti fundað á þingfundartíma til að tefja ekki þingstörf. Það er eingöngu góður hugur sem fylgir þessari tillögu. Mér finnst það einnar messu virði að nefndin skoði hvort þau rök sem ég hef farið hér með séu ekki grundvöllurinn að því að menn geti sameinast um — til að tryggja framgang þessa máls, til að tryggja nauðsynlega úttekt á þessum 5,3% í stóra samhenginu — að Alþingi ákveði að leysa málin með þessum hætti í sumar. Við ætlum að safna í reynslubankann og ætlum að leggja áherslu á það við Byggðastofnun að hún undirbúi starf sitt vel í vor og sumar, þannig að heildarsamhengi verði undir í þeirri úttekt sem helst þyrfti að ljúka fyrir lok þessa árs. Stjórnvöld, þingið, nefndin og ráðuneytið, þurfa gott svigrúm til að klára framtíðarlausn í þessum félagslega þætti fiskveiðistjórnarkerfisins fyrir næsta vor.