149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti líka öðru fyrir mér í tengslum við strandveiðarnar. Sú ósk kom fram í máli ákveðinna hópa að allur afli strandveiðibáta færi á markað. Mér þætti fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess. Ég held að það sem við þurfum að hafa hugfast varðandi félagslega kerfið og þennan drjúga þátt af aflahlutdeildinni, 5,3%, að við gerum samt þær kröfur að við hámörkum verðmætin og verðmætasköpunina í tengslum við 5,3% hlutinn, og að þau verði sem mest, verðmætin verði sem mest sköpuð. Ég velti fyrir mér hvort allur afli á markað sé hluti af því, hvort það sé raunhæft, eða aðrar leiðir sem hv. þingmaður kemur inn á.

Ég ítreka að ég tek undir með þingmanninum að ég tel rétt að nefndin skoði þetta áður en þing fer í páskahlé og er reiðubúin til að funda á þingfundartíma.